Birting á vottaðri umgjörð um græna fjármögnun

Kaldalón hefur birt umgjörð um græna fjármögnun í þeim tilgangi að geta gefið út græn skuldabréf (Green Financing Framework). Markmið útgáfu umgjarðarinnar er að fjármagna eða endurfjármagna umhverfisvottaðar fasteignir, umhverfisvænar fjárfestingar og önnur verkefni í samræmi við stefnu félagsins.

Verkefnin sem fjármögnuð verða með grænum skuldabréfum þurfa að uppfylla þau skilyrði sem koma fram í umgjörð  félagsins, en umgjörðin byggir á alþjóðlegum viðmiðum (e. Green Bond Principles) sem International Capital Market Association (ICMA), Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði hafa sett saman af eftirfarandi stoðum:

  • Ráðstöfun fjármuna
  • Ferli um mat og val á verkefnum
  • Stýring fjármuna
  • Upplýsingagjöf

Umgjörðin hefur hlotið vottun frá Sustainalytics sem er leiðandi viðurkenndur vottunaraðili á heimsvísu. Samkvæmt vottuninni er umgjörð Kaldalóns hf. trúverðug, áhrifarík og í samræmi við ofangreind viðmið ICMA.

Græna umgjörðin var unnin í samstarfi við Landsbankann.

Grænu umgjörðina, ásamt áliti Sustainalytics, má nálgast á vef Kaldalóns.

Jón Þór Gunnarson, forstjóri

„Í dag birtir Kaldalón umgjörð um græna fjármögnun. Árið 2023 gaf félagið í fyrsta skipti út grunnlýsingu vegna 30 milljarða útgáfuramma skuldabréfa og víxla. Félagið gefur í dag út fyrsta græna fjármögnunarramma félagsins og mun í framhaldi gefa út græn skuldabréf á markaði.

Græn skuldabréf eru liður í fjármögnun umhverfisvænna fjárfestinga okkar á borð við umhverfisvottaðar fasteignir. Útgáfan er í samræmi við markmið Kaldalóns um umhverfisvernd og sjálfbærni. „

Nánari upplýsingar veitir

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri
kaldalon@kaldalon.is

Deila frétt

Fleiri fréttir