JÓNAS NÝR FRAMKVÆMDASTJÓRI KALDALÓNS

Texti frá Viðskiptablaðinu 5. júní 2019 

Jónas Þór Þorvaldsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þróunarfélagsins Kaldalóns eftir aðalfund þess sem fram fór í gær. Á fundinum lagði stjórn Kaldalóns til að félagið yrði skráð á First North markaðinn í sumar.

Samkvæmt ársreikningi Kaldalóns sem kynntur var á fundinum var hagnaður af rekstri félagsins á árinu 2018 rúmar 388 milljónir króna og þá nam eigið fé félagsins rúmum 3,2 milljörðum króna í lok árs.

„Uppbygging félagsins hefur gengið vel og verkefni þess eru á áætlun. Kaldalón er félag með langtímasjónarmið að leiðarljósi og ætlum við okkur að byggja upp öflugt félag á byggingamarkaði sem framleiðir hagkvæmt húsnæði sem uppfyllir þarfir almennings. . Það eru spennandi tímar framundan og undirbúningur við skráningu félagsins á markað er á lokastigi og mörg verkefni í vinnslu eða í undirbúningi Það felst mikill styrkur í því fyrir félagið að fá jafn öflugan og reyndan mann eins og Jónas til að leiða þá vinnu í samstarfi við sérfræðinga í eignastýringu Kviku banka,“ segir Ásgeir Baldurs forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Kviku banka.

Jónas er með mikla og víðtæka reynslu í þróun og uppbyggingu fasteigna á höfuðborgarsvæðinu frá aldamótum. Hann var framkvæmdastjóri fasteignaþróunarfélagsins Festis árin 2015-2018 og þar áður framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Landfesta árin 2008-2014. Þá var hann framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins Stoða hf. frá 2000-2007 og stýrði jafnframt fasteignafélaginu Atlas ejendomme á árunum 2005-2007. Jónas hefur tekið virkan þátt í íbúðabyggingaverkefnum á höfuðborgarsvæðinu. Má þar nefna Skuggahverfið í Reykjavík, en hann sat í stjórn félagsins 101 Skuggahverfi hf. á árunum 2003-2007. Hann sat jafnframt í stjórn félags í kringum uppbyggingu á Norðurbakka í Hafnarfirði á árunum 2003-2006. Meðal síðustu verkefna hans hafa verið uppbygging á Héðinsreit, í Gufunesi og Vogabyggð í Reykjavík.

„Kaldalón vinnur að mörgum mjög mikilvægum og áhugaverðum þróunarverkefnum á höfuðborgarsvæðinu. Félagið stendur vel og framundan eru spennandi tímar við uppbyggingu á verkefnum félagsins og skráningu þess á markað. Ég hlakka til að hefjast handa við að leiða þessi metnaðarfullu verkefni,” segir Jónas Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Kaldalóns.