Tilkynning um framkvæmd endurkaupaáætlunar

Vísað er til hluthafafundar Kaldalóns hf. („Kaldalón“ eða „félagið“) sem haldinn var þann 2. júlí 2024 þar sem samþykkt var að heimila stjórn félagsins að kaupa hlutabréf í félaginu þannig að félagið, að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum, eigi allt að 10% af hlutafé þess, þ.e. að hámarki kr. 1.119.568.483 eða 111.956.848 hluti (hver að nafnvirði tíu krónur), í þeim tilgangi að koma á viðskiptavakt með hluti í félaginu og/eða til að setja upp formlega endurkaupaáætlun í samræmi við ákvæði 5. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um markaðssvik nr. 596/2014, sem og framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar 2016/1052, samanber lög um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021.

Þá er vísað til tilkynningar Kaldalóns dags 2. júlí 2024 þar sem tilkynnt var um fyrirhuguð endurkaup, á grundvelli endurkaupaáætlunar félagsins, á allt að 17.000.000 hlutum, þó þannig að fjárhæð endurkaupanna yrði ekki meiri kr. 300.000.000. Framkvæmd áætlunarinnar hófst miðvikudaginn 3. júlí 2024 og var henni ætlað að vera í gildi þar til öðru hvoru framangreindra viðmiða um magn eða fjárhæð yrði náð, en þó ekki lengur en til 31. desember 2024. Endurkaupum samkvæmt áætluninni lauk hinn 29. ágúst 2024 þegar 17.000.000 hlutir höfðu verið keyptir fyrir kr. 293.417.493 eins og fram kemur í tilkynningu Kaldalóns, dags. 29. ágúst 2024.

Tekin hefur verið ákvörðun um hefja frekari endurkaup samkvæmt nýrri endurkaupaáætlun á grundvelli framangreindrar heimildar hluthafafundar Kaldalóns frá 2. júlí sl.

Áætlað er nú að kaupa allt að 17.000.000 hluta, þó þannig að fjárhæð endurkaupanna verði ekki meiri kr. 300.000.000. Framkvæmd áætlunarinnar hefst föstudaginn 30. ágúst 2024 og mun áætlun vera í gildi þar til öðru hvoru framangreindra viðmiða um magn eða fjárhæð er náð, en þó ekki lengur en til 31. desember 2024.

Acro verðbréf hf. mun hafa umsjón með framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar og taka allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna óháð félaginu. 

Kaupin verða framkvæmd í áföngum, þó þannig að kaup hvers dags verða að hámarki 1.096.134 hlutir á dag sem jafngildir 25% af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf félagsins í Kauphöll Íslands í júlí 2024. Endurgjald fyrir keypta hluti skal ekki vera hærra en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem er hærra.

Viðskipti félagsins með eigin hluti í samræmi við endurkaupaáætlunina verða tilkynnt í samræmi við lög og reglugerðir.

Nánari upplýsingar veitir
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri
kaldalon@kaldalon.is

Deila frétt

Fleiri fréttir