Niðurstöður hluthafafundar 2. júlí 2024

Eftirfarandi tillaga var lögð fram fyrir hluthafafund Kaldalóns hf. („Kaldalón“ eða „félagið“), sem haldinn var að Grand Hóteli, Sigtúni 28, Reykjavík, þann 2. júlí 2024.

Tillaga um heimild til kaupa á eigin hlutum og breyting á samþykktum

Samþykkt var tillaga um kaup á eigin hlutum sem getið verður í viðauka við samþykktir félagsins, svohljóðandi:

„Hluthafafundur Kaldalóns hf. haldinn 2. júlí 2024 samþykkir að veita stjórn félagsins heimild, á grundvelli 55. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, til að kaupa, í eitt skipti eða oftar, fyrir hönd félagsins eigin hluti, þannig að félagið eigi samanlagt allt að 10% af hlutafé félagsins. Heimild þessi skal nýtt í þeim tilgangi að setja upp formlega endurkaupaáætlun eða til að gera hluthöfum almennt tilboð um kaup félagsins á eigin hlutum, t.d. með útboðsfyrirkomulagi, enda sé jafnræðis gætt við boð um þátttöku í slíkum viðskiptum. Hlutabréf sem félagið eignast á grundvelli heimildar þessarar má m.a. nota til að lækka hlutafé félagsins og/eða í þeim tilgangi að uppfylla skuldbindingar félagsins samkvæmt kaupréttar- eða áskriftarsamningum við starfsmenn.

Við endurkaup skal hæsta leyfilega endurgjald fyrir hvern hlut ekki vera hærra en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem er hærra. Viðskipti félagsins með eigin hluti skulu tilkynnt í samræmi við lög og reglugerðir. Heimild þessi gildir til 2. júlí 2026.“