Stjórn Kaldalóns hf. („Kaldalón“ eða „félagið“) hefur samþykkt að hefja viðræður við Regin hf. („Reginn“) um möguleg kaup á fasteignum sem telja samanlagt um 47 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Viðskiptin yrðu í samræmi við yfirlýsta stefnu Kaldalóns um arðbæran vöxt.
Viðræður Kaldalóns og Regins koma til vegna viðræðna Regins og Samkeppniseftirlitsins um möguleg skilyrði í tilefni af valfrjálsu tilboði Regins í hlutafé Eikar fasteignafélags hf. („Eik“). Nái Kaldalón og Reginn saman um viðskiptin yrðu þau meðal annars háð fyrirvörum um að Samkeppniseftirlitið samþykki viðskiptin og að valfrjálst tilboð Regins í hlutafé Eikar gangi eftir. Kaldalón hyggst ekki gefa út nýtt hlutafé verði af viðskiptunum.
Viðræður Kaldalóns og Regins snúa að mögulegum kaupum á nánar tilgreindum fasteignum úr eignasafni Regins og Eikar sem telja samtals um 47 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir því að viðskiptin, gangi þau eftir, verði gerð upp í kjölfar uppgjörs á áðurnefndu valfrjálsu tilboði Regins í hlutafé Eikar en gildistími valfrjálsa tilboðsins rennur út þann 21. maí næstkomandi.
Núverandi eignasafn Kaldalóns telur um 110.000 fermetra og þar af eru 104.000 fermetrar þegar afhentir til útleigu hjá félaginu. Aðrar fasteignir eru í byggingu. Verði af viðskiptunum stækkar eignasafn félagsins um áðurnefnda 47 þúsund fermetra og verður þá 157.000 fermetrar.
Áréttað skal að viðræður Kaldalóns og Regins eru á frumstigi og hefur engin ákvörðun verið tekin af hálfu stjórnar Kaldalóns um hvort lagt verði fram skuldbindandi tilboð í þær fasteignir sem um ræðir.
Frekari grein verður gerð fyrir málinu á síðari stigum eftir því sem ferlinu vindur fram í samræmi við lögbundna upplýsingagjöf félagsins.
Ráðgjafi Kaldalóns í viðræðunum er Deloitte.
Nánari upplýsingar veitir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri, jon.gunnarsson@kaldalon.is.