Kaup á 17.600 fermetrum af tekjuberandi fasteignum

Kaldalón hf. („Kaldalón“) hefur skrifað undir samninga um kaup á öllu hlutafé í annars vegar IDEA ehf. („IDEA“) og hins vegar K190 hf. („K190“) en umrædd félög eiga samanlagt sjö fasteignir að stærð um 17.600 fermetrar.

Fasteignir IDEA eru Vesturvör 36, Víkurgata 11B, Völuteigur 31, Klafastaðavegur 12, Gránufélagsgata 47 og Leirukrókur 2-3. Viðskiptin eru háð hefðbundnum fyrirvörum í fasteignaviðskiptum, svo sem um ástandsskoðun og áreiðanleikakönnun. Fasteignirnar hýsa rekstur HD.

Eina fasteign K190 er Klettagarðar 19. Áreiðanleikakönnun og ástandsskoðun er lokið en viðskiptin eru meðal annars háð fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Samhliða viðskiptum liggja fyrir langtímaleigusamningar við núverandi leigutaka eignanna.

Heildarvirði ofangreindra félaga í viðskiptum er 8.335 m.kr. og er áætlað að afhending bæði IDEA  og K190 verði fyrir árslok 2024. Leigutekjur nema á ársgrunni 682 m.kr. en áætlað er að rekstrarhagnaður Kaldalóns aukist um 560 m.kr. á ársgrunni í kjölfar viðskiptanna. 

Jón Þór Gunnarsson:

„Það er einkar ánægjulegt að tilkynna um kaup á fasteignum sem falla vel að fjárfestingarstefnu Kaldalóns. Kaupin eru í samræmi við vaxtarstefnu félagsins sem kynnt hefur verið fjárfestum.

Um 90% virði fasteignanna er á höfuðborgarsvæðinu. Aðrar fasteignir eru vel staðsettar við eða á hafnarsvæðum. Fasteignirnar munu áfram hýsa starfsemi rótgróinna fyrirtækja á iðn- og tækniþjónustumarkaði og matvælamarkaði.

Af því gefnu að báðum viðskiptum ljúki stækkar fasteignasafn Kaldalóns um 16% fyrir árslok og rekstrartekjur félagsins aukast um 682 m.kr. á ársgrundvelli.“


 Nánari upplýsingar veitir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri, kaldalon@kaldalon.is