Kaldalón hf.: Áframhaldandi kaup tekjuberandi fasteigna og útgáfa nýs hlutafjár

Kaldalón hf. og Skeljungur hf. hafa náð samkomulagi um kaup á eftirtöldum fasteignum:

Bústaðavegur 20, 108 Reykjavík
Brúartorg 6, 310 Borgarnes
Dalvegur 20, 201 Kópavogur
Fiskislóð 29, 101 Reykjavík
Fitjar 1, 260 Reykjanesbær
Grjótháls 8, 110 Reykjavík
Gylfaflöt 1, 112 Reykjavík
Hagasmári 9, 201 Kópavogur
Miklabraut 100, 105 Reykjavík
Miklabraut 101, 105 Reykjavík
Óseyrarbraut 2, 220 Hafnarfjörður
Skagabraut 43, 300 Akranesi
Suðurfell 4, 111 Reykjavík

Um er að ræða langtíma þjónustustöðvar og fylgja þeim 20 ára leigusamningar.  Leigutaki er Orkan IS ehf., sem er dótturfélag Skeljungs. Meðal vörumerkja á þjónustustöðvum Orkunnar má nefna Löður, Lyfsalann, Joe and the Juice, Brauð & Co og Bæjarins beztu auk annarra rótgróinna íslenskra og erlendra vörumerkja.

Leigusamningar njóta móðurfélagsábyrgðar frá Skeljungi hf. til 30 mánaða auk leigu- og umhverfistrygginga þegar móðurfélagsábyrgð líkur. Leigusamningar eru byggðir upp með þeim hætti að helsti rekstrarkostnaður s.s viðhald, endurnýjun, umhirða o.fl. er á ábyrgð leigutaka. Leigutekjur nema um kr. 416 m.kr. árlega. Áætlað er að rekstrarhagnaður (NOI) Kaldalóns hækki um 360 m.kr við kaupin.

Kaupverð er kr. 5.989.000.000 og greiðist með reiðufé og útgáfu hlutafjár í Kaldalóni sem numið getur allt að 40% kaupverðs. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka er ráðgjafi Kaldalóns í viðskiptunum.

Viðskiptin er háð kaupsamningsgerð, áreiðanleikakönnunum, endanlegri fjármögnun, samþykki stjórna kaupanda og staðfestingu hluthafafundar Skeljungs hf. Stefnt er að því að viðskiptin komin til framkvæmda eigi síðar en 28. febrúar n.k. að fyrirvörum og skilyrðum kaupanna uppfylltum.  Stjórnarmenn Kaldalóns hf. með tengsl við Streng hf. komu ekki að ákvörðun viðskipta.

Jafnframt hefur Kaldalón náð samkomulagi við eigendur GGH ehf., og Greenwater ehf., um kaup á félaginu Víkurhvarf 1 ehf. en helsta eign þess er vöruhúsnæði að Víkurhvarfi 1 í fullri útleigu. Um er að ræða samtals 4.000 fm húsnæði sem hýsir m.a. vöruhús Core heildsölu. Kaupverð miðar við að heildarvirði félagsins (e. Enterprise Value) sé 1.255 m.kr. Greiðsla fer fram með yfirtöku áhvílandi skulda, reiðufé og útgáfu hlutafjár í Kaldalón hf. að markaðsvirði 400 m.kr.

Samtals er áætlað að Kaldalón gefi út allt að 1.500.722.947 hluti að nafnvirði í tengslum við ofangreind viðskipti, eða sem nemur 2.806.351.910 að markaðsvirði miðað við dagslokagengi bréfa í Kaldalóni miðvikudaginn 22. desember.  Gengi bréfa í viðskiptum er 1,86 í kaupum fasteigna af Skeljungi hf. og 1,88 í kaupum Víkurhvarfs 1 ehf. af GGH ehf. og Greenwater ehf.

Kaupin á ofangreindum eignum koma í kjölfar áður tilkynntra kaupa Kaldalóns á vöruhúsum og geymsluhúsnæði, m.a að Suðurhrauni 10 í Garðabæ og við Íshellu í Hafnarfirði.

 

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri:

Við tilkynnum nú um viðskipti sem stækka efnahagsreikning okkar umtalsvert og gefum samhliða út nýtt hlutafé í félaginu fyrir tæpa 3 milljarða að markaðsvirði. Áður höfðum við tilkynnt um kaup á vöruhúsum á mikilvægum staðsetningum í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Nú bætum við í sarpinn þjónustustöðvum með öflugum leigutökum og lágmarks kostnaði sem staðsettar eru við helstu samgönguæðar og í hjarta hverfanna á Reykjavíkursvæðinu. Þjónustustöðvarnar verða lykilþáttur í verslunarinnviðum til frambúðar og þangað mun fólk sækja bæði þjónustu og fá vörur afhentar.   Við erum því að tryggja okkur bæði hjartað og æðakerfið í verslun og þjónustu framtíðarinnar. Áfram heldur sú vegferð Kaldalóns að bæta við tekjuberandi eignum og styrkja stoðir félagsins fyrir vænta skráningu á aðalmarkað á næsta ári.

 

 

Deila frétt

Fleiri fréttir