Niðurstöður aðalfundar 2024

Eftirfarandi tillögur voru lagðar fyrir aðalfund Kaldalóns hf., sem haldinn var á Grand hótel að Sigtúni 28, Reykjavík, þann 3. apríl kl. 16:00.

Ársreikningur félagsins 2023 og ákvörðun um meðferð hagnaðar eða taps félagsins á reikningsárinu

Ársreikningur félagsins 2023 var lagður fram til staðfestingar og samþykktur samhljóða. Tekin var ákvörðun um að greiða ekki út arð vegna rekstrarársins 2023.

Kosning og skipun stjórnar og varastjórnar

Fyrir fundinum lágu fyrir framboð frá fimm einstaklingum í stjórn og tveimur í varastjórn Kaldalóns hf. og þar sem önnur framboð bárust ekki var stjórn og varastjórn réttilega sjálfkjörin.

Í stjórn félagsins voru kjörin Álfheiður Ágústsdóttir, Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, Haukur Guðmundsson, María Björk Einarsdóttir og Pálína María Gunnlaugsdóttir og í varastjórn Gunnar Henrik Gunnarsson og Hildur Leifsdóttir. Eftir aðalfund var haldinn stjórnarfundur þar sem stjórn skipti með sér verkum og var Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason skipaður stjórnarformaður.

Kjör endurskoðanda félagsins

Samþykkt var samhljóða að endurskoðendafélagið PricewaterhouseCoopers ehf. verði endurskoðandi félagsins fyrir komandi rekstrarár.

Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna og undirnefnda

Samþykkt var samhljóða að þóknun til stjórnarmanna verði kr. 300.000 á mánuði, þóknun stjórnarformanns verði tvöföld þóknun stjórnarmanna og að þóknun til varamanna í stjórn verði kr. 90.000 fyrir hvern fund sem þeir sitja.

Var einnig samþykkt samhljóða að þóknun til nefndarmanna í endurskoðunarnefnd verði 45.000 kr. á mánuði og þóknun formanns nefndarinnar verði kr. 80.000 á mánuði.

Þá var samþykkt samhljóða að þóknun til nefndarmanna í tilnefningarnefnd verði kr. 700.000 á starfsárinu og þóknun formanns nefndarinnar kr. 1.000.000 á starfsárinu.

Samþykkt var samhljóða að stjórnarmenn í starfskjaranefnd fái ekki greitt sérstaklega fyrir að sitja í nefndinni og að ekki verði greitt sérstaklega fyrir formennsku.

Starfskjarastefna félagsins

Starfskjarastefna félagsins, sem er óbreytt frá starfskjarastefnu sem samþykkt var á aðalfundi 2023, var samþykkt samhljóða.

Kosning tilnefningarnefndar

Ásgeir Sigurður Ágústsson, Margrét Sveinsdóttir og Unnur Lilja Hermannsdóttir voru sjálfkjörin í tilnefningarnefnd.

Starfsreglur tilnefningarnefndar

Starfreglur tilnefningarnefndar voru samþykktar samhljóða.

Atkvæðagreiðsla um fyrirliggjandi tillögu um utanaðkomandi nefndarmann í endurskoðunarnefnd

Harpa Vífilsdóttir var kjörin sem utanaðkomandi nefndarmaður í endurskoðunarnefnd félagsins.

Deila frétt

Fleiri fréttir