Kaup á Köllunarklettsvegi 1

Kaldalón hf. hefur fengið samþykkt kauptilboð  á öllu hlutafé Hafnagarðs ehf. í áföngum. Hafnagarður er eigandi að Köllunarklettsvegi 1 í Reykjavík, gamla húsnæði Kassagerðar Reykjavíkur. Þar verður rekinn klasi á sviði sjálfbærni og hringrásar. Meðal leigutaka eru Byggðasamlagið Sorpa og Alþingi. Seljandi er Smáragarður ehf.

Heildarstærð fullbúinnar fasteignar er um 12.300 m2.

Kaupverð alls hlutafjár Hafnagarða ehf. er 4.000 m.kr., byggt á þeirri forsendu að félagið sé skuldlaust og áætlanir þess gangi eftir. Greiðslur til seljanda eru áætlaðar sem hér segir:

  • Við undirritun kaupsamnings greiðast 1.500 m.kr. með nýju hlutafé útgefnu af Kaldalóni
  • 2.000 m.kr.[1] með peningum eða yfirtöku lána þann 1. september 2023, sem er sá dagur þar sem áætlað er að Köllunarklettsvegur 1 verði afhentur tekjuberandi í samræmi við skilalýsingu, auk 100 m.kr. 1 með nýju hlutafé útgefnu af Kaldalóni
  • Eigi síðar en 1. október 2024, skal greiða skilyrta greiðslu að fjárhæð 400 m.kr. 1 með nýju hlutafé útgefnu af Kaldalóni en fjárhæðin tekur breytingum m.t.t. tekna og gjalda félagsins á þeim tíma

Nafnverðsfjöldi nýs hlutafjár í Kaldalóni miðast við meðalgengi tíu síðustu viðskiptadaga fyrir greiðsluskyldu.

Viðskiptin eru háð hefðbundnum fyrirvörum um samþykki fjármögnunaraðila og gerð hluthafasamkomulags vegna þess tímabils sem samningsaðilar eiga Hafnagarð saman. Smáragarður undirgengst hefðbundnar söluhömlur fram til 1. september 2023, en er þó heimilt að afhenda móðurfélagi sínu hlutaféð á því tímabili.

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns:

Ég er mjög ánægður með viðskiptin við Smáragarð og býð félagið velkomið í vaxandi hluthafahóp Kaldalóns. Það er ljóst að starfsemi fyrirtækja í umhverfisvænum verkefnum fer ört vaxandi og viljum við í Kaldalóni taka þátt í þeirri vegferð. Ég hlakka til að gera frekari grein fyrir þessum viðskiptum á fjárfestakynningu Kaldalóns á morgun, kl. 8:30 á Grand hótel.


[1] Fjárhæð er verðtryggð með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Grunngildi er 528,8.

Deila frétt

Fleiri fréttir